Innlent

Sagði Sigmund fiska í gruggugu vatni í umræðu um Arion banka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svaraði fyrirspurnum frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, á þingi í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svaraði fyrirspurnum frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, á þingi í dag. Vísir/Hanna
Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, sagði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, hafa verið að fiska í gruggugu vatni í umræðunni um Arion banka undanfarna mánuði. Þetta kom fram í síðara svari Bjarna til Sigmundar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Sigmundur spurði Bjarna að sömu spurningum og hann spurði Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að síðastliðinn mánudag, einnig í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

„Mun ríkið afsala sér forkaupsrétti að hlutabréfum í Arion banka eins og kröfuhafar eins og vogunarsjóðir fara fram á og mun ríkið selja vogunarsjóðunum þau 13 prósent sem það á í bankanum beint eins og þessir aðilar fara fram á líka?“ spurði Sigmundur Davíð og sagði um einfaldar spurningar að ræða sem hefði gengið erfiðlega að fá svör við frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Hann ítrekaði því spurningarnar þrisvar í fyrri fyrirspurn sinni.

Engin ákvörðun tekin upp forkaupsréttinn hafi ríkið hann á annað borð

Bjarni svaraði því til að hann liti svo á að fullyrðingin sem fyrirspurnin byggði á væri röng, það er að ríkið eigi ekki forkaupsrétt að hlutabréfum í Arion banka.

„Þessi fyrirspurn hún byggir á fullyrðingunni um að íslenska ríkið eigi forkaupsrétt ð hlutabréfunum í Arion banka. Ég vil halda því fram að þessi fyllyrðing hafi reynst röng hjá háttvirtum þingmanni síðastliðið vor, enda var málið lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og kynnt þar og menn virtust almennt sammála um að forkaupsrétturinn væri ekki til staðar.

Varðandi það hvort íslenska ríkið eigi forkaupsrétt að bréfum sem kunna að skipta um hendur núna á þessu ári fyrir ætlaða skráningu bankans gilda um þann mögulega forkaupsrétt skýr ákvæði stöðugleikaskilyrðanna. Samkvæmt þeirri túlkun sem hefur verið framkvæmd af meðal annars Bankasýslunni gildir sú undanþága frá forkaupsréttinum að séu menn að skrá bankann á markað gildi forkaupsréttur ríkisins ekki, í mjög einfölduðu máli,“ sagði Bjarni og bætti því síðan við að ef íslenska ríkið hafi forkaupsrétt þá hafi engin ákvörðun verið tekin um að falla frá honum, hvorki fyrr né síðar, og það væri ekki til umræðu nú.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.vísir/ernir
Sagði ráðherrana spila frá sér hagsmunum landsins

Það sama ætti við 13 prósenta hlut ríkisins í bankanum; enginn væri að tala um að selja hlutinn beinni sölu.

„Það er margt sem segir að það væri langheppilegast ef ríkið ætlaði að fara í sölu á þeim eignarhlut að það væri gert með opnum hætti og í tengslum við skráningu bankans á markað þannig að markaðslögmálin myndu gilda um það,“ sagði Bjarni.

Sigmundur Davíð kom þá í pontu öðru sinni og sagði að hann yrði líklega að hætta að spyrja ráðherra ríkisstjórnarinnar þessara spurninga vegna þess að þeir nýttu hvert tækifæri sem gæfist til til þess „að spila frá sér stöðu, til að spila frá sér hagsmunum landsins.“

Hann spurði síðan hvers vegna vogunarsjóðirnir væru að fara fram á að ríkið afsalaði sér forkaupsréttinum ef hann væri ekki til staðar.

„Hér liggur það fyrir, herra forseti, að þessi aðilar eru að fara fram á það af ríkinu að það afsali sér forkaupsrétti fyrir fram og samt koma hér ráðherrar og segja: Það er nú ekkert víst að ríkið eigi forkaupsrétt. Hvers vegna í ósköpunum er þá verið að fara fram á það af ríkinu að það taki ákvörðun um að afsala sér þessum rétti?

Er ekki mikilvægt, á þessum tímapunkti, herra forseti, að við birtum öll gögn sem varða þetta mál? Er hvæstvirtur fjármálaráðherra til í að beita sér fyrir því með mér að öll gögn sem varða þessi stöðugleikaskilyrði verði birt?“ spurði Sigmundur.

Eina sem stæði út af væri spurningin um hvers vegna íslenska ríkið ætti að eignast þriðja bankann

Bjarni sagði þá að hann væri svo sannarlega talsmaður þess að sem mest af gögnum væru birt þannig að Sigmundur Davíð væri „ekki að fiska í gruggugu vatni eins og hann hefur verið að gera undanfarna mánuði.“

„Til dæmis þegar háttvirtur þingmaður hélt því beinlínis fram að íslenska ríkið gæti bara sisvona leyst til sín Arion banka án þess að nokkur greiðsla kæmi fyrir. Væntanlega var háttvirtur þingmaður þar meðal annars að vísa til þess að íslenska ríkið ætti kröfu á bankann upp á 84 milljarða sem reyndar stendur ekki nema í 35 milljörðum núna og menn ætluðu að sveifla því skuldabréfi til að leysa bara allan bankann til sín,“ sagði Bjarni.

Fjármálaráðherra sagði svo að það eina sem stæði út af í málflutningi Sigmundar væri spurningin hvers vegna íslenska ríkið ætti að leggja tugi milljarða í að eignast þriðja bankann þegar það ætti nú þegar með langstærstu hlutdeild allra ríkja í Evrópu í fjármálakerfi sínu.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir hafa áhuga á að kaupa um tíu prósent í Arion

Tólf lífeyrissjóðir samþykktu að fara í viðræður um kaup í Arion banka. Lýstu yfir áhuga á að kaupa tæplega tíu prósent. Einnig viðræður við tryggingafélög og verðbréfasjóði. Kaupréttur að hlut ríkisins verður nýttur gangi áformin eftir.

Kaupþing getur keypt hlut ríkisins í Arion banka á um 23 milljarða

Ef Kaupþing nýtir sér kauprétt að 13% hlut ríkisins þarf félagið að greiða um 23 milljarða. Það jafngildir genginu 0,8 miðað við eigið fé bankans. Bréfin yrðu seld á sama gengi til lífeyrissjóða. Kaupþing vill svar frá sjóðunum fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×