Knattspyrnusamband Íslands hefur ekki enn fengið neinar skýringar frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, á ótrúlegum og allt að því óeðlilegum fjölda umsókna um miða frá Íslendingum fyrir HM í Rússlandi næsta sumar.
Eins og kom fram í síðustu viku var fjöldi miðaumsókna eftir að glugga tvö var lokað 31. janúar 52.899. Það er vitaskuld ævintýralegur fjöldi og vildi KSÍ fá einhverjar útskýringar frá FIFA.
„Það er ekki neitt komið. Við sendum á tengilið okkar hjá FIFA sem áframsendi á þá sem sjá um málið. Það er ekkert gruggugt við þetta held ég. Það er eitthvað sem útskýrir þennan fjölda en hvað það er vitum við ekki. Annað hvort kemur þetta í ljós eða ekki,“ segir Klara við KSÍ.
Ísland fær um átta prósent miða á alla leiki Íslands sem gerir um 3.200 miða á hvern leik. Einhver fjöldi Íslendinga var búinn að tryggja sér miða á leikina í fyrsta miðasöluferlinu sem gerir þessa tölu enn ótrúlegri.
Óttast er að einhverjir Íslendingar hafi reynt að tvítryggja sér miða með því að skrá sig fyrir miðum og vera einnig með kennitöluna sína í öðrum miðakaupum. Slíkt ógildir öll miðakaup þess einstaklings.

