Fótbolti

Batsman er þegar búinn að setja met hjá Dortmund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michy Batshuayi hefur slegið í gegn hjá Dortmund.
Michy Batshuayi hefur slegið í gegn hjá Dortmund. Vísir/Getty
Belgíski framherjinn Michy Batshuayi fékk ekki mörg tækifæri hjá Chelsea-liðinu en hann er að nýta tækifærið sitt frábærlega hjá Borussia Dortmund.

Batshuayi kallar sjálfan sig „Batsman" sem vísun í ofurhetjuna „Batman" sem við þekkjum líka undir íslenska heitinu leðurblökumaðurinn. Batsman kom svo sannarlega til bjargar þegar Dortmund seldi Pierre-Emerick Aubameyang til Arsenal.

Michy Batshuayi skoraði nú síðast tvö mörk í 3-2 sigri á Atalanta  í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Hann hafði áður skorað þrjú mörk í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum á móti Köln (2) og Hamburger SV (1).





Með því að skora fimm mörk í fyrstu þremur leikjum sínum með Borussia Dortmund setti hann nýtt félagsmet. Engum hefur tekið að skora svo mörg mörk í fyrstu þremur leikjum sínum.

Batshuayi hafði skorað 10 mörk í 25 leikjum í öllum keppnum með Chelsea á tímabilinu eða mark á 107 mínútna fresti sem er svo sem ekkert slæmt. Hjá Dortmund hefur hann skorað mark á mark á 54 mínútna fresti.

Batshuayi þurfti bara að fá tækifærið og það hefur hann sýnt og sannað í Þýskalandi. Hann hefur aðeins fengið að byrja fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni með Chelsea síðan að félagið keypti hann fyrir 33 milljónir punda frá Marseille árið 2016.







Michy Batshuayi er á láni hjá Dortmund frá Chelsea og þýska félagið hefur þegar gefið það út að það ætli að reyna að kaupa hann í sumar.

Samingur Batshuayi og Chelsea rennur ekki út fyrr en í lok júní árið 2021 eða eftir rúm þrjú ár. Hann hefur ekkert viljað gefa upp framtíðarplön sín í viðtölum eftir leiki Dortmund.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×