Innlent

Þingmenn og Eyþór heimsækja lögguna

Jakob Bjarnar skrifar
Glatt á hjalla. Vaskir laganna verðir, þingmenn, lögreglustjóri, ráðherra og Eyþór stilla sér upp fyrir ljósmyndara lögreglunnar.
Glatt á hjalla. Vaskir laganna verðir, þingmenn, lögreglustjóri, ráðherra og Eyþór stilla sér upp fyrir ljósmyndara lögreglunnar.
Þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins auk Eyþórs Arnalds frambjóðanda, fóru fylktu liði á lögreglustöðina í gær. Um var að ræða hálfopinbera heimsókn.

Fyrir fríðum flokki Sjálfstæðismanna fór Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og aðstoðarmaður hennar, Laufey Rún Ketilsdóttir en jafnframt voru með í för þingmennirnir Brynjar Níelsson, Óli Björn Kárason, Birgir Ármannsson auk Eyþórs Arnalds sem nýverið sigraði í leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna í borginni.

Nokkra athygli vakti á dögunum þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vísaði Eyþóri af fundi, vegna þess að hann hafði enga lögformlega stöðu né hafði honum verið boðið. Eyþór var þá í föruneyti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Margir Sjálfstæðismenn fyrrtust fyrir hönd Eyþórs, meðal annarra Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins, en Dagur sagði að Eyþór hefði ekki átt þarna neitt erindi. En, ljóst er að þingmenn Sjálfstæðisflokkinn ætla ekki að halda Eyþóri úti í kuldanum þó staða hans sé óljós.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók fagnandi á móti Sjálfstæðismönnunum eins og sjá má af mynd sem þeir birtu á Facebooksíðu sinni.

„Það er oft gestkvæmt á lögreglustöðinni, en í gær kom hópur sjálfstæðismanna í heimsókn og fundaði með okkar fólki. Þeir höfðu áhuga á að fræðast meira um starfsemi lögreglunnar og var það auðsótt mál,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Jafnframt segir að fundurinn var hinn ánægjulegasti, „en nokkuð reglulega sækja stjórnmálamenn okkur heim og er það vel að þeir, sem og aðrir, sýni starfi lögreglunnar áhuga.“

Meðal þeirra sem tóku á móti Sjálfstæðismönnunum var lögreglustjórinn sjálfur, Sigríður Björg Guðjónsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×