Eins og Vísir fjallaði um í hádeginu vísaði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Eyþóri á dyr við upphaf fundar borgarstjórnar með þingmönnum Reykjavíkur í gær. Ástæðan var sú að Eyþóri hafði ekki verið boðið á fundinn.
„Í kjördæmaviku hittast þingmenn Reykjavíkur og borgarfulltrúar. Eyþór mætti þarna fyrir einhvers konar mistök. Frambjóðendum var alls ekki boðið. Ég er viss um að Vigdís Hauksdóttir hefði líka verið til í að koma. Það verður bara að halda sérfund fyrir þau. Við gerum það bara ef áhugi er fyrir hendi,“ sagði Dagur við Vísi.
Vigdís er sem kunnugt er oddviti Miðflokksins í borginni.
Guðlaugur Þór var hinn léttasti þegar hann svarði símtali Vísis.

„Ég boðaði Eyþór á fundinn,“ segir Guðlaugur. Það liggi fyrir að Eyþór sé oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni og fundir á borð við þennan séu fyrst og fremst til að upplýsa hver annan.
„Þetta eru engir kappræðufundir heldur verið að huga að hagsmunum Reykjavíkur. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmyndaflug í að það yrðu gerðar athugasemdir við þetta,“ segir Guðlaugur hlæjandi.
Hann hafi verið í stjórnmálum lengi en uppákoman sé að hans mati einstök.
„Þetta var bæði fyndið og vandræðalegt. Þetta var svona „ég er ekki að trúa þessu“ augnablik. „Nei, hann er ekki að segja þetta“,“ segir Guðlaugur þegar hann rifjar upp sína upplifun af fundinum.
Hann segist síður vilja gera ágreiningsmál úr hlutum þegar engin þörf sé á því.

„Eyþór tók þessu afskaplega vel. Ég tek á mig fulla ábyrgð að hafa boðað hann á fundinn, af augljósum ástæðum.“
Hann segir mikilvægt fyrir þá sem séu í aðstöðu á borð við Eyþór, í oddvita sæti flokks í borginni, hafi tækifæri til að fyrir yfir þessi mál.
Að öðru leyti segir hann málinu lokið af sinni hálfu.
„Ég algjörlega axla ábyrgð í þessu máli. Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi verið í stjórnmálum nokkuð lengi hafði ég ekki hugmyndaflug í að svona yrði tekið á málinu.“