Innlent

Játaði að hafa skemmt veitingastað í miðborginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í miðborginni í nótt.
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í miðborginni í nótt. Vísir/KTD
Karlmaður olli skemmdum á veitingastað í miðborginni á öðrum tímanum í nótt. Í skeyti lögreglunnar segir að maðurinn hafi viðurkennt í samtali við lögreglumenn að hafa valdið skemmdunum og að hann hafi verið látinn laus að spjallinu loknu. Ekki kemur fram í skeytinu hvað vakti fyrir manninum, hvort hann hafi verið í annarlegu ástandi eða hversu miklar skemmdirnar voru. Að sama skapi er ekki tilgreint hvort eigendur veitingastaðarins hyggist fara fram á bætur vegna málsins.

Tveir karlmenn voru að sama skapi handteknir í gærkvöldi grunaður um brot á vopnalögum. Þeir gista nú fangageymslur lögreglunnar og munu dvelja þar þangað til þeir verða yfirheyrðir.

Karlmaður, sem sagður er hafa verið í annarlegu ástandi, fær einnig að gista í fangaklefa í nótt eftir að hafa verið handtekinn austarlega á höfuðborgarsvæðinu á fjórða tímanum í nótt. Ekki fylgir sögunni hvort hann sé talinn hafa brotið eitthvað af sér eða hvort þörf sé á að yfirheyra hann.

Einn ökumaður var jafnframt handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Hann fékk þó að fara heim til sín að lokinni blóðsýnatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×