Innlent

Símtal um barnaníðing náði ekki til yfirmanns

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Lögregla viðurkenndi alvarleg mistök í meðferð máls barnaverndarstarfsmanns. Frá blaðamannafundi lögreglunnar vegna innri athugunar á vinnu við málið í síðustu viku.
Lögregla viðurkenndi alvarleg mistök í meðferð máls barnaverndarstarfsmanns. Frá blaðamannafundi lögreglunnar vegna innri athugunar á vinnu við málið í síðustu viku. VÍSIR/EYÞÓR
„Velferðarsvið og Barnaverndarnefnd Reykjavíkur taka málið mjög alvarlega og hefur verið unnið að því að afla upplýsinga frá því að lögregla tilkynnti um málið í janúar,“ segir í svari sem lagt var fram í borgarstjórn á þriðjudag.

Um var að ræða svar við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. „Hvernig gat það viðgengist að starfsmaður Reykjavíkurborgar, sem grunaður hefur verið um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, starfaði áfram með þeim? Hvenær var borgarstjóri upplýstur um málið, hvernig var brugðist við og hvaða ráðstafanir voru gerðar?“ var spurt.

Segir í svarinu að framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur hafi fengið „formlegar upplýsingar“ um málið á fundi með lögreglu 18. janúar og upplýst sviðsstjóra velferðarsviðs sama dag. „Daginn eftir var viðkomandi aðili handtekinn og settur í gæsluvarðhald.“

Varðandi það hvenær borgarstjóri hafi verið upplýstur um málið er í svarinu vísað til laga þar sem sjálfstæði barnaverndarnefnda sé tryggt, einkum gagnvart sveitarstjórn. „Starf þeirra er ópólitískt,“ segir í svarinu. Það hafi því komið í hlut sviðsstjóra velferðarsviðs að upplýsa borgarstjóra um málið.

„Staðreyndir málsins eru þær að fyrrverandi starfsmaður skammtímaheimilis hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. janúar síðastliðnum, grunaður um kynferðisbrot gagnvart börnum um margra ára skeið til ársins 2010. Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt lögreglu er ekki grunur um að brotin hafi beinst að börnum sem vistuð voru á  skammtímaheimilinu á vegum Reykjavíkurborgar,“ segir í svarinu.

Þá er vísað til þess að í „fjölmiðlaumræðu“ hafi komið fram að tilkynningar um málefni mannsins hafi borist Barnavernd árin 2002 og 2008 án þess að brugðist væri við. Látið hafi verið að því liggja í umræðum á Alþingi og í fjölmiðlum að barnaverndarnefnd teldi það eðlilegt að tilkynningu um starfsmann á skammtímaheimili fyrir unglinga, sem hefði gerst brotlegur við börn, væri vísað frá þar sem um lögráða einstaklinga væri að ræða. Þetta sé fjarstæðukennt.



Vísir/GVA
„Slíka tilkynningu hefði að sjálfsögðu átt að taka alvarlega og ljóst er að starfsmaður með slíkan bakgrunn ætti alls ekki að starfa með börnum.“

Engin spor eru sögð hafa fundist varðandi árið 2002. „Hins vegar hefur aðili gefið sig fram sem segist hafa hringt árið 2008 með nafnlausa ábendingu um þennan tiltekna starfsmann. Ekki er enn vitað hver tók við símtalinu og Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar rannsakar nú hvers vegna tilkynningin barst ekki til stjórnenda Barnaverndar. Þeirri rannsókn er ekki lokið.“

Velferðarsviðið og Barnaverndarnefnd segja að gert verði áhættumat á starfsemi Barnaverndar og verkferlar varðandi ábendingar og tilkynningar endurskoðaðir til að koma í veg fyrir að mistök.

Enn fremur segir að þegar hafi verið í undirbúningi viðamikil úttekt á barnaverndarstarfi Reykjavíkurborgar í heild sinni og starfsaðstæðum barnaverndarstarfsmanna. „Mun atburðarás síðustu daga og vikna hafa áhrif á innihald þeirrar úttektar.“

Að endingu er sagt að ekki sé æskilegt „að umræða um einstök barnaverndarmál fari fram á vettvangi borgarstjórnar“ – málaflokkurinn sé mjög viðkvæmur. „Innri endurskoðun borgarinnar er að rannsaka hvort eitthvað, og þá hvað, fór úrskeiðis vegna hugsanlegrar tilkynningar árið 2008. Þá er lögreglurannsókn í gangi vegna fyrrnefnds starfsmanns skammtímaheimilis.  rannsóknum er ekki lokið og því óskað eftir því að umræða um tilkynninguna fari fram með yfirveguðum hætti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×