Erlent

Páfi samþykkir að salvadorskur biskup verði tekinn í dýrlingatölu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona heldur á mynd af Oscar Romero þegar hundrað ára fæðingarafmæli hans var fagnað í fyrra.
Kona heldur á mynd af Oscar Romero þegar hundrað ára fæðingarafmæli hans var fagnað í fyrra. Vísir/AFP
Erkibiskup sem hægrisinnaðar dauðasveitir myrtu í El Salvador árið 1980 verður að líkindum tekinn í dýrlingatölu eftir að Frans páfi samþykkti að kraftaverk hefði átt sér stað eftir fyrirbæn til hans.

Herforingjastjórn El Salvador var hatrammlega andsnúin prédikunum Oscars Romero, erkibiskups, gegn kúgun hersins á fátækum borgurum landsins við upphaf borgarastríðsins þar sem stóð yfir frá 1980 til 1992. Dauðasveitir skutu Romero til bana við messu í San Salvador 24. mars árið 1980.

AP-fréttastofan segir að hugmyndir um að Romero yrði tekinn í dýrlingatölu hafi legið dvala þangað til Frans páfi lýsti hann píslarvott skömmu eftir að hann tók við sem páfi árið 2015.

Páfagarður tilkynnti í dag að Frans páfi hafi samþykkt tilskipun um að kraftaverk hafi verið rakið til fyrirbæna til Romero. Það er ein forsenda þess að menn séu teknir í dýrlingatölu innan kaþólsku kirkjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×