Leiknismenn notuðu japanska leikmanninn Ryota Nakamura í leik á móti Fjölni í Lengjubikarnum sem fór fram í Egilshöllinni á laugardaginn var.
Ryota Nakamura var hinsvegar ekki með keppnisleyfi hér á landi þar sem hann er skráður erlendis. Leiknir hefur verið sektað um 60 þúsund krónur fyrir að nota ólöglegan leikmann.
„Í samræmi við greinar 10.1 og 11.2 í reglugerð KSÍ um Deildarbikarkeppni karla hefur skrifstofa KSÍ staðfest að Ryota Nakamura lék ólöglegur með Leikni R. gegn Fjölni í Lengjubikar karla þann 10. mars síðastliðinn. Leikmaðurinn er skráður erlendis,“ segir í frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands.
Fjölnir vann leikinn 4-0 og hefur kæran því ekki áhrif á úrslitin.
„Félag, sem notar leikmann sem ekki hefur keppnisleyfi með því eða notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni, telst hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3 nema tap hafi verið stærra, þá skal sú markatala ráða,“ segir í reglugerðinni.
Ryota Nakamura er 27 ára framherji eða sóknartengiliður sem var síðast leikmaður hjá japanska félaginu Blaublitz Akita.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)