Þessari útgáfu af laginu er ætlað að undirstrika skyldleika lagsins You Raise Me Up við Söknuð en klukkan 14 í dag hefst blaðamannafundur Jóhanns Helgasonar vegna fyrirhugaðrar málsóknar hans gegn Universal Music, norska lagahöfundinum Rolf Løvland og fleirum vegna meints hugverkastuldar á Söknuði.
Gert er ráð fyrir að kostnaður við málaferlin verði á annað hundrað milljónir króna og að kröfur um ógreidd höfundarlaun og skaðabætur geti hlaupið á milljörðum króna.
Lag Jóhanns er samið við texta Vilhjálms Vilhjálmssonar sem söng það inn á hljómplötu árið 1977. Hefur því verið haldið fram að Rolf Løvland hafi heyrt lagið Söknuð á meðan hann dvaldi hér á landi og fékk kynningarkasettu með íslenskum lögum.
Jóhann hefur staðið í þessari baráttu í um áratug en lagið You Raise Me Up var fyrst flutt af írsk/norska dúettinum Secret Garden.
Þann dúett skipuðu írski fiðluleikarinn Fionnuala Sherry og fyrrnefndur Rolf Løvland. Þau vöktu fyrst athygli þegar þau unnu söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, árið 1995 með laginu Nocturne.