Innlent

Rændu einhverfan mann og læstu hann inni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Eyþór
Par réðist inn á einhverfan mann í vesturbæ Reykjavíkur snemma í gærkvöldi, rændi frá honum fjármunum og læsti hann inn í einu herbergi íbúðarinnar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir að annar gerandinn, kona, hafi síðar um kvöldið verið handtekin og var hún vistuð í fangageymslu.

Þá var ofurölvi maður handtekinn á hóteli við Laugaveg rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Maðurinn hafði verið að áreita gesti hótelsins og var hann vistaður í fangageymslu.

Um klukkan hálf þrjú í nótt voru tveir menn handteknir í Hafnarstræti í Reykjavík fyrir líkamsárás, brot á lögreglusamþykkt, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu og brot á lyfjalögum vegna útbreiðslu lyfja. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu við rannsókn málsins.

Um klukkan hálf fjögur í nótt tveir aðrir menn handteknir grunaðir um líkamsárás og voru þeir vistaðir í fangageymslu.

Um klukkan hálf níu í gærkvöldi var tilkynnt um slys við bar í Breiðholti. Maður datt í tröppum og var með áverka í andliti. Hann var fluttur á slysadeild en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um meiðsl mannsins.

Þá voru sjö ökumenn handteknir í gærkvöldi og í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×