Handbolti

„Tuttugu ár síðan Fram vann Val í leik um Íslandsmeistaratitilinn“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valur og Fram berjast um Íslandsmeistaratitilinn í úrslitum Olís deildar kvenna sem hefjast annað kvöld. Valur er deildarmeistari en Fram bikarmeistari og ríkjandi Íslandsmeistari.

„Það verður erfitt að eiga við þær, þær hafa unnið okkur tvisvar í vetur og verða erfiðar,“ sagði Ágúst Jóhannesson, þjálfari Vals, við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Ég held að okkur hafi verið spáð fimmta sæti fyrir mót svo við höfum komið á óvart. En við höfum á að skipa sterku liði og ætlum að reyna að veita Fram harða samkeppni.“

Stefán Arnarsson vann titilinn fjórum sinnum með Val en mætir nú með lið Fram í úrslitaeinvígið.

„Valur var deildarmeistari og er búið að vera besta liðið í vetur. Síðan eru einhver 20 ár síðan Fram vann Val í leik um Íslandsmeistaratitil þannig að líkurnar hljóta að vera Valsmegin,“ sagði Stefán.

„Þetta eru tvö jöfn lið að getu en ég held þetta verði stórskemmtilegir leikir. Við spilum aðeins hraðari leik en þær en þetta eru tvö gríðarlega sterk varnarlið.“

Leikur Vals og Fram verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport annað kvöld og hefst útsending klukkan 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×