Erlent

Facebook-myndir afhjúpuðu svikara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hanna Dickenson sagðist vera með krabbamein.
Hanna Dickenson sagðist vera með krabbamein. Facebook
Hin ástralska Hanna Dickenson hefur verið dæmd til 3 mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa þóst vera með krabbamein. Þannig tókst henni að svíkja út þúsundir dala frá vinum og vandamönnum. Grunur vaknaði um að ekki væri allt með felldu eftir að myndir af henni, skælbrosandi á ferðalagi, birtust á Facebook.

Alls náði hin 24 ára gamla Dickenson að suða út rúmlega 3,1 milljón íslenskra króna eftir að hún tilkynnti foreldrum sínum að hún þyrfti að gangast undir dýra krabbameinsmeðferð í útlöndum.

Foreldrarnir leituðu því á náðir vina og ættingja eftir fjárframlögum - sem Dickenson er síðan sögð hafa notað til að fjármagna utanlandsferðir og skemmtanahald.

Málið var rekið fyrir dómstólum í Melbourne og sagði dómarinn við uppkvaðninguna að málið væri „fyrirlitlegt.“

Saksóknarinn í málinu fór hörðum orðum um Dickenson og sagði mál hennar „rjúfa dýpstu hjartastrengi mannskepnunnar.“ Hún hafi misnotað traust fólks sem hafi aðeins viljað aðstoða hana. 

Verjandi Dickenson segir hana af lært af mistökum sínum, hún sé allt önnur manneskja í dag og því ætti hún skilið að fá vægari dóm fyrir vikið. Ætla má að þriggja mánaða dómnum verði áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×