Erlent

Ennið hefur þróunarlegan tilgang

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
Vísindamenn gætu haft svar við því af hverju við erum með enni.
Vísindamenn gætu haft svar við því af hverju við erum með enni. Vísir/Getty
Vísindamenn kunna að vera komnir með svar við því af hverju við höfum enni. 

Penny Spikins, þróunarmannfræðingur við York háskóla og kollegar hennar birtu grein í Nature Ecology and Evolution í dag. Þar leggja þau fram þá tilgátu að ennið á manninum hafi þróast svo að hann geti sýnt tilfinningar.

Í umfjöllun VOX um greinina kemur fram að Spikins og félagar hafi komist að þessari tilgátu eftir að hafa rannsakað höfuðkúpu Homo heidelbergensis, forföður okkar mannanna, sem var uppi fyrir um það bil 700 þúsund til 200 þúsund árum.

Heidelbergensis var með stórar og þykkar augabrúnir en lítið enni. Augabrúnirnar virðast ekki hafa þjónað neinum sérstökum tilgangi. Mögulega voru þær svona stórar til að sýna styrk og yfirráð.





Homo heidelbergensis til vinstri og hauskúpa mannsins til hægri.
Eftir því sem maðurinn þróaðist varð minni þörf fyrir að skapa yfirráð og meiri þörf fyrir samskipti við aðra einstaklinga.  

Það kann því að vera að við höfum þróað með okkur stórt enni til þess að tjá okkur og geta sýnt tilfinningar. Augabrúnirnar þróuðust á svipaðan hátt segir Spikin. „Augabrúnirnar eru líffræðilegt gangvirki sem sýnir öðrum einstaklingum hvernig okkur líður.“

Hún segir vaxandi viðurkenningu á því innan vísindasamfélagsins að samskipti og tilfinningar spili hlutverk í þróun okkar sem lífvera.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×