Fótbolti

Liverpool græðir á hruni Leipzig

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Keita kemur til Liverpool 1. júlí næst komandi, þegar félagsskiptaglugginn opnast á ný
Keita kemur til Liverpool 1. júlí næst komandi, þegar félagsskiptaglugginn opnast á ný vísir/getty
Slæmt gengi þýska liðsins RB Leipzig í Bundesligunni fær stjórnarmenn Liverpool til þess að brosa því verðmiðinn á Naby Keita minnkar eftir því sem Leipzig fellur í deildinni.

Keita hefur nú þegar skrifað undir hjá Liverpool og hann mun ganga til liðs við enska félagið í lok þessa tímabils. Kaupverðið er hins vegar ekki frá gengið.

Ef Leipzig endar í Meistaradeildarsæti þarf Liverpool að borga 59 milljónir punda fyrir leikmanninn. Sú upphæð minnkar niður í 53,75 milljónir punda ef Leipzig nær bara sæti í Evrópudeildinni og er aðeins 48 milljónir fyrir 7. sæti eða slakari árangur.

Leipzig er eins og er í sjötta sæti deildarinnar eftir 5-2 tap gegn Hoffenheim í síðustu umferð þegar þrjár umferðir eru eftir. Aðeins einu stigi munar á Leipzig og Eintracht í sjöunda sætinu og fjögur stig eru upp í Bayer Leverkusen í Meistaradeildarsæti.

Keita hefur skorað 9 mörk í 37 leikjum í öllum keppnum fyrir Leipzig á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×