Innlent

Stefnt að því að Tryggvi fái umönnun á Kirkjuhvoli í framtíðinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Tryggvi Ingólfsson.
Tryggvi Ingólfsson. Mynd/Arnþór Birkisson
Stefnt er að því að Tryggvi Ingólfsson, sem er lamaður fyrir neðan háls eftir fall af hestbaki, verði í umönnun á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli í framtíðinni. Tryggvi þarf aðstoð allan sólarhringinn við allar athafnir en hann hefur búið á hjúkrunarheimilinu í ellefu ár.

Tryggvi fór í aðgerð nýverið en þegar hann ætlaði að snúa aftur á Kirkjuhvol var neitað að taka við honum. Fjallað var um málið á Vísi í gærkvöldi

Sveitarstjórn Rangárþings hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem kemur fram að athugun hafi leitt í ljós að hjúkrunarheimilið geti ekki séð um aðhlynningu og vistun Tryggva svo að öryggi hans sé tryggt.

„Hins vegar er stefnt að því að heimilið geti tekið við umönnun mannsins í framtíðinni og mun sveitarstjórn styðja við bakið á stjórnendum stofnunarinnar svo það geti orðið,“ segir í yfirlýsingunni sem má lesa í heild hér fyrir neðan:

Sveitarstjórn Rangárþings eystra fer með rekstrarlega ábyrgð á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli. Sveitarstjórn hefur þar engar faglegar forsendur til að grípa inn í einstök mál skjólstæðinga.

Vegna mjög viðkvæms málefnis fatlaðs einstaklings sem hefur um 11 ára skeið verið þar heimilismaður hafa stjórnendur Kirkjuhvols og sveitarstjórn notið ráðgjafar Margrétar Tómasdóttur sem er talsmaður sjúklinga sem og annarra sérfræðinga.

Athugun umræddra sérfræðinga hefur leitt í ljós að Hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvoll, hafi á þessum tímapunkti ekki forsendur til þess að sjá um aðhlynningu og vistun umrædds einstaklings svo að öryggi hans verði tryggt.

Hins vegar er stefnt að því að heimilið geti tekið við umönnun mannsins í framtíðinni og mun sveitarstjórn styðja við bakið á stjórnendum stofnunarinnar svo það geti orðið.

Að gefnu tilefni skal einnig skýrt tekið fram að sveitarstjórn stýrir ekki heldur hverjir fá búsetuúrræði á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli, það gerir sérstök Heilsu- og færnimatsnefnd sérfræðinga á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×