Norður-Kóresk stjórnvöld segja að rán sín á japönskum ríkisborgurum á Kaldastríðsárunum séu „útkljáð“ og saka Japani um að þvælast fyrir friðarferlinu sem nú stendur yfir á Kóreuskaganum.
Í frétt ríkissjónvarps Norður-Kóreu, KCNA, í gærkvöld voru japönsk stjórnvöld harðlega gagnrýnd vegna þeirrar afstöðu sinnar að taka ekki upp stjórnmálasamband við Pjongjang fyrr en búið væri að komast til botns í hið minnsta 12 mannránum sem framin voru á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
„Japönsku afturhaldsseggirnir blóðmjólka nú „mannránsmálið“ sem hefur nú þegar við útkljáð,“ er haft eftir KCNA á vef Guardian. „Þetta er bara illkvittin og heimskuleg aðferð til að stöðva friðaraferlið á Kóreuskaganum, þrátt fyrir að því hafi verið hampað af gjörvöllu alþjóðasamfélaginu,“ sagði KCNA áður en það bætti við að japönsk stjórnvöld væru þau einu sem syntu gegn straumi alþjóðastjórnmálanna.
Stjórnvöld í Pjongjang slepptu fimm japönskum ríkisborgurum, sem rænt var til að þeir gætu frætt norður-kóresku leyniþjónustuna um Japan, árið 2002. Þau halda því jafnframt fram að átta japanskir fangar hafi dáið í norður-kóreskum fangelsum og segjast ekkert kannast við hina fjóra sem Japanar segja að finnist enn í landinu.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, segir að þó svo að Bandaríkin og Suður-Kórea komist að samkomulagi við Norður-Kóreu muni stjórnvöld í Tókíó ekki endurvekja stjórnmálasamband sitt við Pjongjang fyrr en mannránsmálin hafa verið leidd til lykta. Að sama skapi munu engum japönskum fjármunum verða varið til uppbyggingar í Norður-Kóreu fyrr en ásættanleg svör berast frá Kim Jong-un og embættismönnum hans.
Norður-Kórea segir Japani þvælast fyrir friðarferlinu

Tengdar fréttir

Meirihlutinn trúir leiðtoga Norður-Kóreu
Meirihluti íbúa Suður-Kóreu trúir því að Kim Jong Un standi við orð sín.

Sleppa Bandaríkjamönnum úr haldi í Norður-Kóreu
Norður Kórea hefur leyst þrjá bandaríska ríkisborgara úr haldi eftir fund Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Kim Jong Un leiðtoga einræðisríkisins í nótt.