Innlent

„Mjög æstur“ maður skemmdi íbúð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nokkrir fengu að gista fangaklefa á Hverfisgötu í nótt.
Nokkrir fengu að gista fangaklefa á Hverfisgötu í nótt. Vísir/eyþór
Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í íbúð í Austurbænum á öðrum tímanum í nótt. Lögreglu barst tilkynning um að „hávaði og læti“ bárust frá íbúðinni og þegar lögrelumenn komu á vettvang var húsráðandi sagður hafa verið „mjög æstur.“

Hann á að hafa skemmt eitthvað af innanstokksmunum í bræði sinni en ekki fylgir sögunni hvort hann hafi veist að öðrum í íbúðinni. Sem fyrr segir var maðurinn handtekinn og fluttur í fangageymslu þar sem hann hefur mátt sofa úr sér vímuna. Maðurinn verður svo yfirheyrður þegar búið er að renna af honum.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um að stolinni bifreið væri ekið um Austurbæinn skömmu fyrir miðnætti. Eftir um 7 mínútur frá því að tilkynningin barst hafði lögreglan handtekið tvo einstaklinga skammt frá bifreiðinni. Þeir voru einnig fluttir í fangaklefa grunaðir um að hafa stolið bílnum.

Þá voru jafnframt skráninganúmer tekin af fjórum bifreiðum vegna vangoldinna tryggingariðgjalda og vanrækslu á aðalskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×