„Eins og blaut tuska framan í okkur þingflokksformenn sem höfum unnið samkvæmt ákveðnu samkomulagi. Tökum ekki í mál að svona sé komið fram við þingið og þingflokksformenn. Málið verður ekki á dagskrá þingsins í dag,“ sagði Oddný G. Harðardóttir. Hún segir að verið sé að afhenda útgerðinni 3 milljarða á silfurfati.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, sagði að málið væri víst á dagskrá samkvæmt áætlun. En hann ætlaði að funda með þingflokksformönnum í hádeginu.
Logi Einarsson formaður Samfylkingar kom næstur í ræðupúlt og sagði þetta áhugaverðan dag á þinginu. Hann var harðorður en síðar kom á daginn að þar var hann að vitna beint í Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, fimm ára gamla Facebookfærslu, hvar hún fer hörðum orðum um sambærileg vinnubrögð og fyrirætlanir um lækkun veiðigjalda eins og nú stendur fyrir dyrum.

Fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna hafa nú þegar tekið til máls og fordæmt þessar fyrirætlanir harðlega og spara hvergi stóru orðin. En, fylgjast má með umræðunni hér neðar.