Erlent

Hótar að bregðast tífalt við öllum árásum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans.
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans. Vísir/AP
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, segir að ríkið muni aldrei hætta eldflaugaþróun sinni. Það sé draumur vesturvelda sem aldrei muni rætast. Þá heitir hann því að Íran muni svara öllum árásum tífalt. Spennan á milli Íran og vesturveldanna hefur aukist til muna eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sleit Bandaríkin frá kjarnorkusamkomulaginu svokallaða.

Evrópuríkin sem komu að samkomulaginu vinna nú hörðum höndum að því að bjarga því en samkomulaginu var ætlað að koma í veg fyrir að Íranar þróuðu kjarnorkuvopn.

Bandaríkin ætla að beita viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn Íran á nýjan leik.

Trump hefur sagt að hann vilji gera nýtt samkomulag sem snúi einnig að eldflaugaþróun Íran. Khamenei segir það þó ekki koma til greina.

„Einhverjir Evrópubúar eru að tala um að takmarka eldflaugaþróun okkar. Ég segi þeim að það sé draumur sem muni aldrei rætast,“ sagði Khamenei í sjónvarpsviðtali samkvæmt Reuters fréttaveitunni.



Khamenei sagði einnig á dögunum að óvinir Íran beittu ríkið efnahagslegum- og sálrænum árásum og nýjar refsiaðgerðir Bandaríkjanna væru liður í þeim árásum. Íran myndi þó svara tífalt fyrir sig. Hann sagði að Íran myndi ekki draga úr áhrifum sínum í Mið-Austurlöndum og kallaði eftir því að ungir Arabar stæðu upp í hárinu á Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×