Í auglýsingunni kennir ýmissa grasa. Þar má sjá landsliðsfólk í knattspyrnu, fallegt íslenskt landslag, íþróttafréttamanninn Guðmund Benediktsson, Eið Smára Guðjohnsen, Gunnar Nelson, Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur, Björgvin Karl Guðmundsson, Emmsjé Gauta og Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur svo einhver séu nefnd.
Auglýsingin er sögð hafa tekið um 7 mánuði í framleiðslu og alls útheimt um 13 tökudaga. Tökur á auglýsingunni hófust í æfingaferð landsliðsins í San Fransisco í apríl og héldu svo áfram á ýmsum stöðum á Íslandi; Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Hveragerði, Sandgerði og á fleiri stöðum.
„Við vildum gera auglýsingu sem snerti við sem flestum landsmönnum. Auglýsingu sem myndi keyra stemmninguna fyrir keppninni upp á suðupunkt og myndi minna okkur öll á að við erum saman í þessu verkefni. Við leikmennirnir erum kannski 11 inná vellinum en við upplifum þetta samt aldrei þannig að við séum einir þar. Við finnum vel fyrir stuðningnum og finnum það sterkt að allir Íslendingar standa þétt saman að baki okkur,” er haft eftir leikstjóranum Hannesi í tilkynningu frá Coca-Cola.
Auglýsinguna má sjá hér að neðan.