Innlent

Reynt að smygla heróíni til landsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hvor umræddra pilta á tvítugsaldri hafði rúmlega kíló af kókaíni í fórum sínum.
Hvor umræddra pilta á tvítugsaldri hafði rúmlega kíló af kókaíni í fórum sínum. Vísir/Vilhelm
Sex einstaklingar sæta nú gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á jafn mörgum málum er varða innflutning á fíkniefnum. Í tilkynningu frá lögreglu segir að í tveimur aðskildum málum sé um að ræða tvo pilta rétt um tvítugsaldur og í þriðja málinu var gerð tilraun til að smygla heróíni til landsins. Þetta sé sérstakt áhyggjuefni.

Hvor umræddra pilta á tvítugsaldri hafði rúmlega kíló af kókaíni í fórum sínum við komuna hingað til lands. Þá var einn karlmaður til viðbótar, sem kom til landsins frá Köln í Þýskalandi, með 105 pakkningar innvortis og innihéldu þær samtals rúmlega kíló af kókaíni.

Fjórði maðurinn var með tæpan lítra af amfetamínbasa í flösku undan viskíi í farangrinum. Aðrir sem sæta rannsókn vegna fíkniefnamála voru með mun minna magn.

Að því er segir í tilkynningu lögreglu er samtals um að ræða 3,7 kíló af kókaíni, lítilræði af heróíni og nær einn lítra af amfetamínbasa sem hægt hefði verið að framleiða um 3 kíló af amfetamíni úr. Tollgæsla stöðvaði mennina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komuna til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×