Samkvæmt lista yfir alla hluthafa bankans miðvikudaginn 20. júní, sem Markaðurinn hefur séð, átti félagið Vogun hf., sem seldi fyrir skemmstu þriðjungshlut sinn í HB Granda, samtals 0,4 prósent af heildarútgefnum bréfum bankans. Markaðsvirði hlutar Vogunar, en stærsti hluthafi þess félags er Kristján Loftsson og fjölskylda í gegnum Fiskveiðihlutafélagið Venus, er í dag um 660 milljónir króna. Eignarhlutur annarra einkafjárfesta í Arion banka er hverfandi.

Samkvæmt hluthafalista Arion banka eiga átta af stærstu lífeyrissjóðum landsins samtals um 3,1 prósents hlut í bankanum. Þar munar mest um 0,65 prósenta hlut Gildis, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 0,53 prósent, Frjálsi og Stapi eiga hvor um sig 0,4 prósenta hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna fer með 0,38 prósent og Almenni á 0,35 prósent. Eignarhlutur annarra sjóða – Birtu og Lífsverks – er talsvert minni.
Þá bættu sjóðir í stýringu Stefnis, Landsbréfa, Íslandssjóða og Júpíters, sem höfðu áður keyptu um 2,5 prósenta hlut í bankanum í febrúar á þessu ári, við hlut sinn í útboðinu og eiga nú samanlagt um 3,5 prósent. Sex sjóðir í stýringu Stefnis, sem er dótturfélag Arion banka, eiga þannig 1,17 prósent á meðan hlutur sjóða í rekstri hinna félaganna er samtals á bilinu 0,66 prósent til 0,91 prósent. Verðið sem sjóðunum bauðst í útboðinu var talsvert hagstæðara en nokkrum mánuðum áður þegar þeir keyptu á genginu 89 krónur á hlut, eða sem jafngilti 0,8 miðað við þáverandi eigið fé Arion banka.

Nokkurrar óánægju gætir meðal innlendra fjárfesta með þá aðferðafræði sem var beitt við skerðingar í útboði Arion banka, þar sem eftirspurnin reyndist margföld, en þeir fengu almennt aðeins á bilinu 10 til 30 prósent af þeim hlut sem þeir höfðu óskað eftir að kaupa. Mörg dæmi voru um einkafjárfesta sem fengu ekki nein bréf úthlutuð í bankanum þótt þeir hafi skráð sig fyrir háum fjárhæðum. Samkvæmt heimildum Markaðarins skráðu Stoðir sig fyrir í kringum 100 milljónum hluta í útboðinu, eða sem jafngildir um 7,5 milljörðum miðað við útboðsgengi, en fékk sem fyrr segir 12 milljónir hluta úthlutaðar í bankanum. Arion banki er á meðal stærstu hluthafa Stoða með um 16 prósenta hlut.
Sjö sjóðir í stýringu Eaton Vance Management, samkvæmt hluthafalistanum, eiga samtals um 1,2 prósenta hlut í bankanum en fjárfestingarsjóðir á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins hafa verið umsvifamiklir í fjárfestingum í skráðum félögum í Kauphöllinni síðustu misseri og ár. Það á einnig við um fjárfestingarsjóði á vegum Landsdowne, sem eiga rúmlega þriggja prósenta hlut, og Miton, sem fara með um 1,7 prósent, en sjóðir fyrirtækjanna höfðu skuldbundið sig fyrir fram til kaupa í útboðinu, sem svonefndir hornsteinsfjárfestar, fyrir samtals 60,5 milljónir dala.