Fótbolti

HM-drátturinn í hádeginu í dag

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson og félagar sjá riðilinn í dag.
Arnór Þór Gunnarsson og félagar sjá riðilinn í dag. vísir/ernir
Dregið verður í riðla fyrir heimsmeistaramótið í handbolta karla við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Kaupmannahafnar klukkan 12.30 í dag. Mótið fer svo fram í Danmörku og Þýskalandi í janúar á næsta ári. Ísland tryggði sér þátttökurétt á mótinu með því að leggja Litháen að velli eftir samanlagðan sigur í tveimur leikjum í umspili um laust sæti á mótinu fyrr í þessum mánuði.

Íslenska liðið verður í fjórða styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla, en liðunum 24 sem taka þátt á mótinu hefur verið raðað í sex styrkleikaflokka. Leikið verður í fjórum sex liða riðlum á mótinu. Íslenska liðið er með Serbíu, Túnis og einni Ameríkuþjóð í styrkleikaflokki og getur ekki lent með framangreindum þjóðum í riðli. Styrkleikaflokkana má sjá hér að neðan.

Þýskaland, annar gestgjafi mótsins, verður í A-riðli og alþjóða handknattleikssambandið hefur ákveðið að hafa aukinheldur lið Kóreu í ­A-riðlinum. Handknattleikssambönd Danmerkur og Þýskalands hafa ákveðið að hafa Króatíu í ­B-riðli, Danmörk verður í C-riðli og fyrrgreind sambönd hafa fest Svíþjóð í D-riðil mótsins.

Að öðru leyti fer drátturinn þannig fram að eitt lið úr hverjum styrkleikaflokki fer í hvern riðil, en liðin sem nú þegar hafa verið sett í riðla eru fulltrúar þess styrkleikaflokks í þeim riðli. Drátturinn verður sýndur í beinni útsendingu í streymi á heimasíðu Alþjóðahandknattleikssambandsins, ihf.info, og opinberri heimasíðu mótsins, handball19.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×