Fótbolti

Joachim Löw: Við misstum aldrei trúna

Einar Sigurvinsson skrifar
Joachim Löw fagnar með Toni Kroos í leikslok.
Joachim Löw fagnar með Toni Kroos í leikslok.
„Það sem ég kunni að meta í dag var að við fórum aldrei á taugum eftir að við fengum á okkur markið. Við héldum haus,“ sagði Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, sem var að vonum ánægður með sína menn eftir dramatískan sigur á Svíþjóð.

Toni Kroos reyndist hetja Þjóðverja en sigurmarkið kom ekki fyrr en á 95. mínútu.

„Við misstum aldrei trúna. Að sjálfsögðu höfðum við heppnina með okkur þegar við skoruðum markið í uppbótartíma en þetta var afrakstur þeirrar trúar sem við höfðum á verkefnið.“

Svíþjóð komst yfir í leiknum eftir um hálftíma leik, en sókn Svía hófst eftir misheppnaða sendingu frá Toni Kroos. Löw var því sérstaklega ánægður með að sigurmarkið hafi komið frá Kroos.

„Ég var mjög ánægður fyrir hans hönd, af því að hann gerði mistök sem leiddi til marks Svíþjóðar.“

Þýskaland mætir Suður-Kóreu á miðvikudaginn þegar lokaumferð F-riðils fer fram, en Suður-Kórea er eina lið riðilsins sem á ekki möguleika á að komast í 16-liða úrslit. Þó svo að Þýskaland vinni þann leik getur Svíþjóð farið áfram á þeirra kostnað í 16-liða úrslit. Til þess að komast áfram þarf Þýskaland því treysta á að Svíþjóð vinni ekki Mexíkó með meiri mun en þeir vinni Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×