Innlent

Fluttu sjúk­ling frá Eyjum með Herjólfi því þyrla Gæslunnar komst ekki vegna veðurs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
TF GNÁ er ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar.
TF GNÁ er ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar. vísir/vilhelm
Flytja þurfti sjúkling frá Vestmannaeyjum með Herjólfi og svo með sjúkrabíl til Reykjavíkur þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar komst ekki til Eyja vegna slæms skyggnis og veðurs.

Flutningurinn var boðaður á hæsta forgangi og þar sem Mýflug, sem sinnir sjúkraflugi í Eyjum, var ekki að fljúga vegna slæms skyggnis og veðurskilyrða var þyrlan kölluð út. Kom útkallið rétt fyrir klukkan 12 í dag.

„Það er þannig að varðskipið Þór er nálægt Vestmannaeyjum og þar um borð eru menn sem hafa starfað á þyrlunni. Það var haft samband við þá og þeir mátu aðstæður að þyrlan gæti ekki lent í Eyjum. Það er mjög sjaldgæft að þetta gerist. En þarna sköpuðust bara þannig aðstæður að vegna skyggnis og veður var það slæmt að þyrlan komst ekki,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi.

Hann segir veðrið hafa verið sérstaklega slæmt í dag og ítrekar að það sé mjög sjaldan sem þessar aðstæður skapist. Búið hafi verið að kalla áhöfn út á þyrluna sem var mætt niður á flugvöll til að fara af stað þegar ákvörðun var tekin um að gera það ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×