Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool og miðjumaður enska landsliðsins í fótbolta, er meiddur aftan í læri og tæpur fyrir undanúrslitaleik Englands gegn Króatíu á HM 2018 sem fram fer á miðvikudaginn.
Sky Sports hefur heimildir fyrir þessu en meiðslin eru ekki sögð alvarleg og gæti farið svo að Henderson verði klár í slaginn fyrir þennan fyrsta undanúrslitaleik enska liðsins á heimsmeistaramóti í 28 ár.
Sjúkralið Englands mun passa vel upp á miðjumanninn næstu daga til að hafa hann kláran í slaginn en enska liðið vann Svíþjóð auðveldlega, 2-0, í átta liða úrslitum mótsins á laugardaginn þar sem að Henderson spilaði vel eins og aðrir leikmenn liðsins.
Henderson hljóp tveimur kílómetrum meira en næsti maður í leiknum á móti Kólumbíu í 16 liða úrslitum mótsins en þessi óþreytandi vinnuhestur er gríðarlega mikilvægur fyrir enska liðið inn á miðjunni.
Jamie Vardy, framherji Leiester, er enn þá tæpur vegna meiðsla sinna í nára sem hann varð fyrir á móti Kólumbíu í 16 liða úrslitum en Vardy horfði á leikinn gegn Svíþjóð úr stúkunni.
England hefur ekki komist í undanúrslit á HM síðan árið 1990 þegar liðið tapaði að sjálfsögðu í vítaspyrnukeppni fyrir Vestur-Þýskalandi.
Henderson meiddur og tæpur fyrir undanúrslitin

Tengdar fréttir

Hart spilaði krikket frekar en að horfa á England spila
Enski markvörðurinn Joe Hart var ekki valinn í leikmannahóp enska landsliðsins sem fór á HM í Rússlandi en Hart var ekki valinn einn af þremur markvörðum Englands á mótinu.