Innlent

Valt við losun á hlassi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan hafði hendur í hári fjölda ökumanna í nótt.
Lögreglan hafði hendur í hári fjölda ökumanna í nótt. Vísir/vilhelm
Umferðarbrot og óhöpp voru fyrirferðamikil hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.

Til að mynda hafnaði bifreið drukkins ökumanns, sem ekið hafði á móti rauðu ljósi, á ljósastaur við gatnamót Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs. Ökumaðurinn er sagður hafa verið bílbeltislaus en ekki er þó vitað um meiðsl hans. Talið er að loftpúðar bílsins, sem sprungu út við áreksturinn, hafi bjargað því að ekki fór verr. Bifreiðin var dregin af vettvangi og var Orkuveitan kölluð til, svo að gera mætti við fyrrnefndan ljósastaur.

Nokkrum klukkustundum áður hafði verið tilkynnt um slys við Bolöldu. Þar hafði vörubifreið oltið á hliðina við losun á hlassi. Ökumaður bílsins slasaðist og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala. Ekki er þó vitað á þessari stundu hversu alvarleg meiðslin voru. Ekki fylgir heldur sögunni hvers konar hlass verið var að losa þegar slysið átti sér stað.

Þá voru fjölmargir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaakstur, ásamt því að aka án þess að hafa öðlast tilskilin réttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×