„Það kom í ljós á síðustu dögum uppgraftrarins að þessir tveir skálar sem við erum að rannsaka á Stöð í Stöðvarfirði, sá eldri og sá yngri, eru miklu stærri en við höfðum gert okkur grein fyrir og eru með þeim stærstu á skandinavískan mælikvarða,“ segir Bjarni Einarsson fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum á Stöð.
„Þann yngri túlka ég sem hið eigin lega landnámsbýli með búskap, stendur ofan í eldri skálanum sem ég áður túlkaði sem útstöð. Það kom á óvart hversu gríðarlega stór hann er,“ segir Bjarni. „Hann er að minnsta kosti fjörutíu metra langur. Útstöðvar eru vel þekkt fyrirbæri í norrænum menningarheimi en stöð sem þessi var rekin af höfðingja, stórbónda eða kóngi og hafði það hlutverk að framleiða vörur til sölu heima fyrir.“
Sjá einnig: Er Íslandssagan rétt ef hér stóð hús árið 810?

Báðir skálarnir á Stöð í Stöðvarfirði eru ævafornir. C-14 greiningar gefa til kynna að búseta kynni að hafa hafist rétt eftir 800 og verið fram yfir landnám. „Samkvæmt gjóskulögum eru þeir eldri en frá 871. Það er vísbending enn sem komið er en landnámslagið fræga er ekki í veggjum skálanna. Hins vegar finnst það yfir mannvirkinu í smiðjunni í eldri skálanum sem gefur ákveðnar vísbendingar.“
Þessi hugmynd um að hér hafi verið útstöð konungs, höfðingja eða stórbónda, gæti breytt hugmyndum okkar um af hverju menn hafi sest að hér á landi.
„Útstöðvarkenningin byggir á því að fólk hafi komið hingað til lands til að vinna auðlindir hér við land og farið af landi brott aftur á haustin. Þannig taka einstaklingar ekki bara vörur til sinna heimahaga heldur líka upplýsingar um þetta nýja land,“ segir Bjarni. „Á grundvelli þeirra upplýsinga gæti því það fólk tekið meðvitaða ákvörðun um að setjast að á Íslandi. Fólksflutningakenningar byggja á því að á einhverjum tímapunkti verður þráin eftir nýjum stað meiri en viljinn til að vera um kyrrt.“