Erlent

Rúmlega 200 drukknuðu á þremur dögum á Miðjarðarhafi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Flóttafólki hefur verið vísað frá Ítalíu í stórum stíl.
Flóttafólki hefur verið vísað frá Ítalíu í stórum stíl. Vísir/afp
Það sem af er ári hafa rúmlega eitt þúsund manns á flótta frá heimkynnum sínum drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhaf. Þar af drukknuðu rúmlega 200 á síðustu þremur dögum.

Óttast er að smyglarar freisti þess nú að fara háskalegri leið yfir hafið þar sem yfirvöld á Ítalíu og í Líbíu hafa ákveðið að stórefla strandgæslu sína.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna greindi frá því í gær að 276 flóttamenn hefðu komið til Trípólí í Líbíu í byrjun vikunnar. Þar af voru 16 manns sem komust lífs af þegar bátur þeirra sökk með 130 manns um borð.

Þetta er fjórða árið í röð sem fleiri en eitt þúsund manns drukkna á leið sinni yfir Miðjarðarhaf.

Othman Belbeisi, fulltrúi Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar, sagði í gær að skyndileg fjölgun dauðsfalla flóttafólks væri ógnvænleg þróun.

„Smyglarar hagnýta sér neyð flóttafólks og þörf þess til að halda yfir Miðjarðarhafið áður en yfirvöld á svæðinu herða landamæraeftirlit sitt,“ sagði Belbeisi.

Talið er að aðeins helmingur þeirra sem flúið hafa Líbíu í ár hafi komist til Evrópu. Hlutfallið var 86 prósent á síðasta ári.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×