Fótbolti

Pickford: Vissum við myndum vinna þótt við færum í vítakeppni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jordan Pickford ver frá Bacca
Jordan Pickford ver frá Bacca víris/getty
England vann sína fyrstu vítaspyrnukeppni á HM í sögunni í kvöld. Jordan Pickford var hetja dagsins er hann varði frá Carlos Bacca í síðustu spyrnu Kólumbíu. Eric Dier skoraði svo úr síðustu spyrnu Englendinga og tryggði sigurinn.

Pickford gerði það sama og Hannes Þór Halldórsson gerði áður en hann varði víti frá Lionel Messi; hann vann heimavinnuna sína.

„Ég vann heimavinnuna mína. Ég hef kraft og liðleika. Mér er alveg sama þó ég sé ekki stærsti markvörðurinn því þetta snýst um það að vera þarna og verja og ég gerði það,“ sagði Pickford eftir leikinn.

„Þetta snýst allt um staðsetningu og ég kom hendinni í hann. Við vissum að við myndum taka þennan leik, jafnvel þó hann færi í vítaspyrnukeppni, við vissum við gætum unnið.“

„Ég hef verið gagnrýndur fyrir að reyna að verja með efri hendinni, en svo lengi sem þú verð þá er það það eina sem skiptir máli. Ég er kannski ungur en ég er sterkur andlega og hef reynslu og ég notfærði mér það í dag.“

England mætir Svíum í 8-liða úrslitunum á laugardag.


Tengdar fréttir

Englendingar unnu loks í vítaspyrnukeppni

Englendingar unnu vítaspyrnukeppni á HM í fyrsta skipti í sögunni og unnu leik í útsláttarkeppni í fyrsta skipti í tólf ár þegar þeir mættu Kólumbíu í 16-liða úrslitum á HM í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×