Hjónin Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson keyptu Ásmundarsal af Alþýðusambandi Íslands fyrir rúmum tveimur árum fyrir 168 milljónir króna. Húsið hefur fengið mikla andlitslyftingu og er enn ætlað undir listviðburði. Jafnframt hefur verið sótt um leyfi til að innrétta þar 55 manna kaffihús sem vera á með vínveitingar til klukkan eitt á nóttunni um helgar og til klukkan ellefu að kvöldi á virkum dögum. Málið var kynnt íbúum í átta nærliggjandi húsum á Freyjugötu og Eiríksgötu.
Í fyrrnefndu bréfi sem vitnað er til segja hjónin Ingunn Ingimars og og Páll Borg sem búa á Freyjugötu 42 að þau telji veitingastað með þessum opnunartíma geta raskað ró íbúðahverfisins of mikið. Reiturinn milli Barónsstígs og Njarðargötu og hafi verið fjölskyldu- og íbúðahverfi í marga áratugi án þjónustustarfsemi.

„Þess má geta að við höfum fengið þó nokkrum sinnum forsmekkinn af slíkum umgangi nýverið er listasafnið stóð fyrir gjörningum með hátalarakerfi úti í garði og uppi á svölum langt fram eftir kvöldi og þótti okkur og nágrönnum í nærliggjandi húsum alveg nóg um,“ skrifa Ingunn og Páll.
Fleiri mótmælabréf nágranna lúta sömuleiðis að áhyggjum af ónæði vegna breytinganna, sem geti jafnvel verðfellt eignir þeirra er meðal annars bent á.
„Þær uppákomur sem hafa verið frá opnun sýna að veruleg truflun er af. Vínveitingaleyfi gerði bara illt verra. Það er líka vafasamt að hafa atvinnustarfsemi í hverfinu þar sem ekkert er um bílastæði. Hér býr líka vaktafólk og má ekki við fleiri svefnlausum tímum af völdum skrílsláta,“ skrifar til dæmis Benedikt Hjartarson á Freyjugötu 42.
Málið, ásamt mótmælabréfum nágrannana, var tekið fyrir á fundi hjá skipulagstjóra Reykjavíkur í síðustu viku. Þar var ákveðið að setja það til umsagnar hjá verkefnisstjóra hverfisins.