Bandaríkjastjórn hefur óskað eftir því að Sameinuðu þjóðirnar fordæmi Rússland og Kína fyrir ólöglega olíusölu til Norður-Kóreu.
Reuters fréttaveitan hefur fengið að sjá skjöl sem bandarískir ráðamenn segja að sýni hvernig tankskip frá Norður-Kóreu mæli sér mót við önnur tankskip á hafi úti og færi olíuna á milli. Þannig sé komist hjá viðskiptaþvingunum.
Í skjölunum eru nefnd 89 dæmi um slíka olíuflutninga frá byrjun árs til maíloka. Skjölin voru afhent fulltrúum allra 15 ríkja í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í morgun.
Í desember samþykkti Öryggisráðið að takmarka olíuinnflutning Norður-Kóreu við 500,000 tunnur af unnum olíuvörum á ári. Svo virðist sem tankskipin hafi komist fram hjá eftirliti til að brjóta gegn þessum takmörkunum.
Rússar og Kínverjar hafa tilkynnt löglega sölu á aðeins 14 þúsund tunnum af unnum olíuvörum til Norður-Kóreu það sem af er ári. Bandaríkjastjórn vill stöðva alla slíka sölu í ljósi þess að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi brotið gegn skilmálum Öryggisráðsins.
Í fyrrnefndum skjölum eru myndir af norður-kóreskum tankskipum að sigla til hafnar eftir að hafa tekið olíu á hafi úti.
Þar segir að ef þau beri að jafnaði um 90% af flutningsgetu sinni sé um að ræða meira en 1,367,000 tunnur af olíu sem hafi verið fluttar ólöglega til landsins. Það er tæplega þrefalt meira en kvótinn leyfir á ársgrundvelli.
Þetta vekur ekki síst athygli í ljósi þeirrar þýðu sem hefur verið í milliríkjasamskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu eftir nýlegan leiðtogafund Donalds Trump og Kim Jong-un.
Bæði Rússar og Kínverjar hafa neitunarvald í Öryggisráðinu og því ljóst að það mun ekki álykta gegn þeim þjóðum. Þær deilur sem málið mun vekja gætu hins vegar sett strik í reikninginn í friðarferlinu á Kóreuskaga.
Saka Rússa og Kínverja um ólöglega olíusölu til Norður-Kóreu

Tengdar fréttir

Norður-Kóreumenn kalla viðræður við Bandaríkin „hörmulegar“
Bakslag er komið í viðræður Bandaríkjanna og Norður-Kóreu um afkjarnavopnun.

Bandaríski utanríkisráðherrann gerir lítið úr gífuryrðum Norður-Kóreumanna
Viðræður um afkjarnavopnun Norður-Kóreu halda áfram þrátt fyrir ásakanir um glæponahegðun.

Trump segist hafa afstýrt stríði á Kóreuskaganum
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að stríð myndi ríkja á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu ef sín hefði ekki notið við.