Mikill viðbúnaður var á Reykjavíkurflugvelli þegar flugvél Air Iceland Connect, sem tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli fyrr í dag, var snúið við vegna bilunar. Vélinni var lent heilu og höldnu á flugvellinum á fjórða tímanum. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir þetta í samtali við Vísi.
Að sögn Guðjóns var vélin nýlögð af stað til Egilsstaða þegar upp kom bilun í öðrum hreyfli. Var vélinni strax snúið við og lenti hún heilu og höldnu á Reykjavíkurflugvelli skömmu eftir klukkan 15. 44 farþegar voru um borð í flugvélinni og var þeim öllum hleypt frá borði. Engan sakaði.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að lending flugvélarinnar hafi heppnast vel en henni hafi verið snúið við eftir að reyks varð vart í vélinni.
Neyðarstigi var lýst yfir vegna bilunarinnar og voru viðbragðsaðilar frá lögreglu og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kallaðir út. Að sögn Guðjóns hefur neyðarviðbúnaður nú verið afturkallaður.
Fréttin hefur verið uppfærð.


