Sala Domino’s á Íslandi á fyrstu sex mánuðum ársins jókst um 5,5 prósent frá sama tímabili í fyrra, að því er fram kemur í árshlutareikningi móðurfélagsins, Domino’s Pizza Group, sem birtur var í gær. Hagnaður varð af rekstrinum hér á landi en hins vegar skilaði rekstur pitsukeðjunnar í Noregi, Sviss og Svíþjóð tapi.
Aðeins hefur þó dregið úr söluvextinum hér á landi en salan jókst um 15,2 prósent á fyrstu sex mánuðum síðasta árs frá fyrra ári.
Fram kemur í fjárfestakynningu Domino’s Pizza Group vegna uppgjörsins að stefnt sé að opnun tveggja pitsustaða hér á landi á fjórða ársfjórðungi. Stjórnendur keðjunnar, sem á 95,3 prósenta hlut í Domino’s á Íslandi, telja að hér megi reka alls 30 staði en þeir eru nú 23 talsins.
