Lögreglukona í borginni Dallas í Texas skaut nágranna sinn til bana því hún taldi hann vera innbrotsþjóf. Í ljós kom að lögreglukonan hafði villst á íbúðum og var inni í íbúð mannsins.
Nágranninn, Botham Jean, var 26 ára gamall, kom frá eyríkinu Sankti Lúsíu og starfaði hjá ráðgjafafyrirtækinu PwC. Jean var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.
Lögreglukonan hafði verið að koma heim af vakt og kom að manni inni í íbúðinni. Konan skaut innbrotsþjófinn sem reyndist verða eigandi íbúðarinnar við hlið íbúðar konunnar. Konan tilkynnti sjálf um atvikið.
Lögregluyfirvöld í Dallas hafa ekki opinberað nafn konunnar en hafa greint frá því að hún verði send í leyfi á meðan að á rannsókn málsins stendur.
Ekki liggur fyrir hvernig konan komst inn í íbúð mannsins en íbúar í íbúðablokkinni segja í samtali við AP fréttaveituna að hægt sé að opna íbúðirnar með lykli eða talnakóða.
Lögreglustjóri Dallas, Renee Hall, sagði á blaðamannafundi að lögreglukonan yrði kærð fyrir manndráp.
Skaut mann sem hún taldi innbrotsþjóf en var sjálf í rangri íbúð
Andri Eysteinsson skrifar
