Samræmd könnunarpróf í íslensku og ensku verða lögð fyrir nemendur 10. bekkjar í tíu grunnskólum 10. til 14. september.
Er verið að leggja prófin fyrir nemendur öðru sinni en þeir þreyttu þau fyrst á síðasta skólaári og þá í 9. bekk. Prófin eru lögð fyrir aftur þar sem aðeins um helmingi nemenda tókst að ljúka prófunum vegna tæknilegra vandamála sem komu upp í rafrænu prófakerfi.
„Í kjölfarið ákvað menntamálaráðherra að öllum nemendum yrði gefinn kostur á að taka prófin að nýju og að stjórnendur í hverjum skóla tækju ákvörðun um hvort prófin yrðu lögð fyrir sl. vor eða nú í haust. Í 130 skólum var ákveðið að leggja þau fyrir að vori og gekk framkvæmd prófanna hnökralaust fyrir sig. Í næstu viku mun endurfyrirlögn prófanna fara fram í þeim tíu skólum sem ákváðu að fresta fyrirlögn fram á haustið,“ segir í tilkynningu Menntamálastofnunar.
Þar kemur jafnframt fram að vinnulag við undirbúning og framkvæmd prófanna taki mið af niðurstöðum óháðra úttekta sem gerðar voru að loknum prófunum í mars.
Þá er vakin sérstök athygli á því að framhaldsskólar óska ekki eftir niðurstöðum samræmdra könnunarprófa þegar umsóknir um framhaldsskólavist eru metnar, enda sé prófunum ekki ætlað að veita heildarmat á námsstöðu einstaklings við lok skyldunáms.
