Viðskipti Kortaþjónustan hefur sagt upp meira en tug starfsmanna eða um fimmtungi starfsmanna fyrirtækisins, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, vildi ekki staðfesta uppsagnirnar í samtali við Fréttablaðið.
„Kortaþjónustan var í mikilli sókn á erlenda markaði og því fylgdi verulegur rekstrar- og hugbúnaðarkostnaður. Við höfum ákveðið að rifa seglin í útrásinni en einbeita okkur aftur að greiðsluþjónustu fyrir íslensk fyrirtæki. Það kunnum við best og með aðhaldi í kostnaði getum við áfram boðið hagstæðustu kjörin í færsluhirðingu á Íslandi,“ segir Björgvin Skúli sem tók við starfi framkvæmdastjóra í janúar.
Kortaþjónustan hefur vaxið hratt á umliðnum árum. Til að mynda nánast tvöfölduðust tekjurnar á milli áranna 2016 og 2017 og námu 4,5 milljörðum króna í fyrra. Sama ár var fyrirtækið rekið með 1,6 milljarða króna tapi. Kortaþjónustan stóð frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda í kjölfar greiðslustöðvunar breska flugfélagsins Monarch síðasta haust. Íslenska félagið var á meðal átta félaga sem sáu um færsluhirðingu fyrir Monarch. Það var í ábyrgðum vegna greiðslna fyrir flugferðir sem aldrei voru farnar.
Kvika banki og hópur einkafjárfesta keyptu Kortaþjónustuna á eina krónu í fyrra og lögðu félaginu um leið til nærri 1,5 milljarða króna í nýtt hlutafé. Á meðal fjárfesta eru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, stórir hluthafar í Kviku og VÍS, bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir og Sigurður Bollason.
Kortaþjónustan segir upp meira en tug starfsmanna

Tengdar fréttir

Geta eignast fjórðungshlut í Kortaþjónustunni
Fyrrverandi eigendur Kortaþjónustunnar munu geta eignast allt að fjórðungshlut í fyrirtækinu samkvæmt breytingum sem gerðar voru á samþykktum færsluhirðingarfyrirtækisins í byrjun ársins.

Björgvin Skúli ráðinn framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar
Björgvin Skúli Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi hjá fyrirtækinu síðastliðinn föstudag, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Velta Kortaþjónustunnar tvöfaldaðist
ortaþjónustan tapaði 1,6 milljörðum króna í fyrra, eins og áður hefur verið upplýst um.