Erlent

Assange höfðar mál gegn Ekvador

Samúel Karl Ólason skrifar
Julian Assange hefur haldið til í sendiráðinu frá 2012.
Julian Assange hefur haldið til í sendiráðinu frá 2012. AP/Matt Dunham

Julian Assange, stofnandi og fyrrverandi ritstjóri Wikileaks, er að höfða mál gegn ríkisstjórn Ekvador, sem hann sakar um að brjóta á mannréttindum sínum og frelsi. Hann hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London frá árinu 2012.

Í yfirlýsingu frá Wikileaks segir að yfirvöld Ekvador hafi hótað fyrir rúmu hálfi ári að vísa honum úr sendiráðinu og komið hafi verið í veg fyrir samskipti hans við umheiminn. Sérstökum búnaði hafi verið komið fyrir í sendiráðinu til að koma í veg fyrir að hann hefði aðgang að internetinu og gæti ekki tekið á móti símtölum.

Þar segir enn fremur að lögmanni Human Rights Watch hafi verið meinað að hitta Assange.

Ný ríkisstjórn Ekvador hefur um nokkuð skeið reynt að koma Assange úr sendiráðinu. Assange flúði þangað á árum áður vegna ákæru um nauðgun í Svíþjóð. Það mál hefur verið fellt niður en hann á þó enn handtöku yfir höfði sér í Bretlandi fyrir að hafa ekki mætt fyrir dómara. Assange óttast að vera framseldur til Bandaríkjanna verði hann handtekinn.

Assange var nýverið veittur aðgangur að internetinu að nýju en með ákveðnum skilmálum. Meðal þeirra skilmála voru að hann yrði að þrífa baðherbergi sitt og hugsa um kött sinn.

Þá þarf Assange að láta sendiráðsstarfsmenn vita með þriggja daga fyrirvara vilji hann taka á móti gestum og þurfa yfirmenn sendiráðsins að samþykkja hverjir fái að koma í heimsókn. Þá má hann aðeins tengja símann sinn og tölvu við þráðlaust net sendiráðsins en reyni hann að tengja einhvern annan búnað við netið má hann búast við því að búnaðurinn verði tekinn af honum.

Í yfirlýsingu Wikileaks segir að allir þeir sem hitti Assange þurfi að gefa upp persónulegar og tæknilegar upplýsingar sem Ekvador geti deilt með öðrum aðilum.

Þá er vísað til opins bréfs sem bandarískir þingmenn skrifuðu til forseta Ekvador. Þar töluðu þeir um að nauðsynlegt væri að leysa málefni Assange áður en ríki tvö geti starfað betur saman. Fyrrverandi forseti Ekvador hefur haldið því fram að núverandi ríkisstjórn sé að reyna að brjóta vilja Assange á bak aftur.

  

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×