Viðskipti innlent

Fordómar á vinnumarkaði: Mun líklegra að Guðmundur og Anna fái starfið en Muhammed og Aisha

Atli Ísleifsson skrifar
Kári Kristinsson segir að það hafi komið mjög sterkt í ljós að það séu töluverðir fordómar gagnvart þeim sem bera múslimskt nafn.
Kári Kristinsson segir að það hafi komið mjög sterkt í ljós að það séu töluverðir fordómar gagnvart þeim sem bera múslimskt nafn. Mynd/Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson
Að bera dæmigert múslimskt nafn er mikil hindrun á íslenskum vinnumarkaði og á það sérstaklega við um konur. Þetta er niðurstaða rannsóknar Kára Kristinssonar og Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur hjá Háskóla Íslands, en Kári kynnir rannsókn þeirra á Þjóðarspeglinum  í HÍ í dag.

 „Það kemur mjög sterkt í ljós að það eru töluverðir fordómar gagnvart þeim sem bera múslimskt nafn,“ segir Kári sem er dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Hann segir að þau hafi ákveðið að ráðast í beina mælingu á fordómum, þar sem í gegnum árin hafi verið alls kyns sögusagnir um fordóma gagnvart útlendingum á íslenskum vinnumarkaði. „Að menntun þeirra sé ekki metin og annað í þeim dúr. Það er ýmislegt sem bendir til þess að það sé rétt, en við vildum kanna þetta betur og þá með megindlegri rannsókn.“

Skoðuðu starfsumsóknir

Kári segir að þau Margrét Sigrún hafi tekið handahófskennt úrtak af þjóðinni og fengið Félagsvísindastofnun til liðs við sig. „Við fengum úrtakið til að skoða ferilskrár, starfsumsóknir. Þátttakendur í rannsókninni fengu bara eina starfsumsókn og voru svo beðnir um að meta ýmsa eiginleika þessa fólks – hvort það væri líklegt til að ráða þessa manneskju í vinnu, hvað það taldi vera eðlileg laun, hvort það væri hæft fólk og fleira í þeim dúr.

Við settum svo dæmigert íslenskt karlmannsnafn og kvenmannsnafn á ferilskrárnar – Guðmund og Önnu – sem og týpískt múslimskt nafn á karlmanni og svo konu – Muhammed og Aisha,“ segir Kári, en bendir á að höfundar geri sér fulla grein fyrir því að múslimar geti líka verið Íslendingar. „En við völdum mjög þekkt nöfn úr múslimaheiminum. Eftirnöfnin á þessum umsækjendum voru sömuleiðis valin með sama hætti.“

Þjóðarspegillinn: Ráðstefna í félagsvísindum fer fram í Háskóla Íslands í dag milli klukkan 9 og 17.Vísir/Vilhelm

Eini munurinn á ferilskránum var nafn umsækjanda

Kári segir að það hafi komið mjög sterkt í ljós að það séu töluverðir fordómar gagnvart þeim sem bera múslimskt nafn.

„Eini munurinn á þessum ferilskrám var nafnið á umsækjandanum. Það eru sérstaklega konur með dæmigert múslimskt nafn sem koma illa út. Ef það væru engir fordómar til staðar þá ættum við ekki að sjá neinn mun. Þetta eru nákvæmlega jafn hæfir einstaklingar að öllu leyti.“



Rímar við það sem þekkist erlendis

Hann segir að þetta stemmi að mörgu leyti við það sem þekkist erlendis. „Þar sem við á annað borð finnum fordóma þá er það sérstaklega mikið gagnvart þeim með múslimskan bakgrunn. Þetta voru að sjálfsögðu ekki starfsviðtöl, þeir sem voru spurðir hittu ekki viðkomandi umsækjanda, en á móti kemur að ef það eru svona miklir fordómar þá er ólíklegt að viðkomandi yrði á annað borð boðið í viðtal. Langlíklegast er að umsækjandinn færi í bunkann sem yrði ýtt til hliðar. Það er eitt sem útlendingar hafa oft kvartað yfir. Þeim er ekki einu sinni boðið í viðtal. Eiga ekki séns.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×