„Ef ég á að segja þér alveg eins og er er þetta byggt á fólki í kringum mig sem ég þarf að fá útrás fyrir og mér finnst betra að gera þetta heldur að vera alltaf að velta því fyrir mér af hverju sumir geta ekki verið öðruvísi en þeir eru,“ segir Hjálmar um karakterana sem hann hefur vakið hvað mest athygli fyrir.
„Bjarni gröfumaður er byggður af gamla skólanum algjörlega. Gömlum körlum sem eru bara með fordóma og vilja bara vinna. Þekkja ekkert annað en að vinna og byrja borga VR eða Eflingu bara tveggja þriggja ára gamlir,“ segir Hjálmar og fer því næst yfir í Hvítvínskonuna.
„Hún er byggð á konum sem elska bara hvítt og að njóta að lífið er núna,“ segir Hjálmar og bætir við að Karl Önnuson Magnason Sigrúnarson sé byggður á öfgafemínistum sem hoppuðu á vagninn á sínum tíma en voru kannski ekki alveg heilir í því sem þeir voru að gera.
Í þættinum ræðir Hjálmar einnig um þáttinn Háski sem sýndur var á Vísi og slógu ekki í gegn, um kvikmyndabransann og um þann heiður að fá að leika með Ladda og Hilmi Snæ, um lykilinn að vera góður bílasölumaður, um baráttuna við aukakílóin og hvað sé framundan hjá kappanum.
Hér að neðan má sjá fimmta þáttinn af Einkalífinu en þátturinn vikulegi er í loftinu á fimmtudögum á Vísi.