Innlent

Fær greitt þrátt fyrir fjarveru sína í bæjarráði

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Sigurjón Vídalín situr í bæjarráði Árborgar.
Sigurjón Vídalín situr í bæjarráði Árborgar. Vísir
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, fulltrúi Á-lista, Áfram Árborg í meirihlutasamstarfi listans, Framsóknar og óháðra, Miðflokksins og Samfylkingarinnar, hefur mætt á þrjá fundi af þrettán í bæjarráði, frá því nýtt meirihlutasamstarf var kynnt 1. júní í sumar.

Í fjarveru hans hafa varamenn listans setið fundi ráðsins og þegið greiðslur auk þess að Sigurjón hefur haldið sínum greiðslum fyrir setu sína í bæjarráði. Á-listinn, Áfram Árborg, saman stendur af Pírötum og Viðreisn.

Á fundi bæjarráðs Árborgar sem haldinn var 1. nóvember var lögð fram fyrirspurn frá Kjartani Björnssyni, fulltrúa D-lista í ráðinu, um hver kostnaður sveitarfélagsins sé við að varamaður Á-listans hafi setið flesta fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar, það er kostnaður umfram fasta þóknun bæjarfulltrúa, sem viðkomandi aðalmaður þiggur.

Í svari meirihlutans segir að fyrir hvern setinn bæjarráðsfund fái varamaður greiddar 16.833,- krónur. Varamenn Á-listans hafa setið tíu fundi bæjarráðs. Þá kemur fram að þessi háttur hafi verið viðhafður í bæjaráði sveitarfélagsins að minnsta kosti frá árinu 2003.

Heldur föstum greiðslum enda gera reglur ekki ráð fyrir öðru

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.Vísir/MHH
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar staðfestir þetta í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Gísli segir að aðalmaður Á-listans hafi haldið öllum þeim fastagreiðslum sem samþykktir sveitarfélagsins kveða á um þennan tíma, enda geri reglurnar ekki ráð fyrir öðru.

Mánaðarleg greiðsla til bæjarráðsfulltrúa er 67.333,- krónur á mánuði og hefur núverandi fulltrúum verið greitt frá 15. júní eftir að nýr meirihluti tilkynnti um samstarf sitt. Aðalfulltrúar fá hins vegar ekki greitt fyrir hvern fund líkt og varamenn.

Við í vinnu við Vaðlaheiðargöngum

Bæjarráð Árborgar. Frá vinstri, Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, Gísli Halldór Halldórsson, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarráðsmaður og Gunnar Egilsson, bæjarráðsmaður.Mynd/rborg
Skýring á slakri fundarsókn aðalfulltrúa Á-listans er að hann hafi verið bundinn af verkefnum sínum vegna Vaðlaheiðarganga og var bundinn lengur en nokkur hafi búist við. Gísli Halldór segir að skyldum Sigurjóns í því verki sé líklega að ljúka í dag eða á morgun.

Gísli tekur fram í svari sínu að Sigurjón hafi sinnt skyldum sínum vel á því tímabili sem um ræðir, að öðru leyti en því að hafa misst úr marga fundi í bæjarráði sem haldnir séu á fimmtudögum. Þeir dagar hafi hitt illa á hann. Gísli segir aðalfulltrúann hafa sett sig vel inn í öll mál og upplýst varamenn og undirbúið þá fyrir fundi.

Áætlaður kostnaður sveitarfélagsins fyrir setu Sigurjóns í bæjarráði frá 15. júní er á þriðja hundrað þúsund og kostnaður vegna varamanna er á annað hundrað þúsund.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×