Innlent

Forsetahjónin seldu Neyðarkallinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hér má sjá forsetahjónin með Landsbjargarfólki, já og hundi.
Hér má sjá forsetahjónin með Landsbjargarfólki, já og hundi. Fréttablaðið/Stefán
Herra Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetahjón hófu árlegt söfnunarátak Slysavarnafélagsins Landsbjargar í gær með því að setja af stað sölu á Neyðarkallinum í Kringlunni í Reykjavík.

Í tilkynningu frá félaginu í gær kom fram að hagnaður af sölunni renni beint til björgunarsveita og að fjármagnið verði notað til að bæði efla búnað og styrkja þjálfun björgunarsveitarmanna um allt land. Þar kom einnig fram að rekstur björgunarsveita sé dýr. Þjálfa þurfi björgunarsveitarfólk, tæki og tól þurfi að vera tiltæk og í góðu lagi, húsnæði þurfi undir búnað og olíu á tækin. Því er fjármagns aflað með ýmsum hætti. Með sölu á Neyðarkalli, flugeldum, með dósasöfnun, gæsluverkefnum, jólatréssölu og ýmsu öðru.

Sala á Neyðarkallinum mun halda áfram í dag og á morgun og mun Landsbjargarfólk standa vaktina víða um land. „Við vonum að landsmenn taki þeim opnum örmum og styðji þannig við bakið á fórnfúsu starfi þúsunda sjálfboðaliða,“ sagði í tilkynningu frá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×