Sport

Segja nýjar siðareglur sambandsins vonbrigði

Sveinn Arnarsson skrifar
Líney Rut Halldórsdóttir
Líney Rut Halldórsdóttir Vísir/Vilhelm
Framkvæmdastjóri Blátt áfram og sérfræðingur hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, undrast að í nýsamþykktum siðareglum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sé ekki minnst á kynferðisofbeldi eða kynferðislega áreitni.

„Ég get ekki annað sagt en að þetta séu mikil vonbrigði. Ég hefði vonast til að settur hefði verið skýr rammi um kynferðisofbeldi,“ segir Sigríður Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Blátt áfram. „Ég myndi mæla með að þetta yrði endurskoðað þar sem dæmin sanna að þetta gerist í íþróttum eins og annars staðar og við þurfum að horfa á þetta með þeim augum að þarna er viðkvæmur hópur, börn og unglingar.“

Endurskoðaðar siðareglur íþrótta­sambandsins voru samþykktar á fundi framkvæmdastjórnar um miðjan mánuðinn og er aðilum sambandsins gert skylt að taka siðareglurnar til sín og setja sér hegðurnarviðmið sem falli að siðareglunum.

Hafdís Inga Hinriksdóttir.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, segir nýsamþykktar siðareglur hafa verið unnar í samvinnu við siðfræðing og að svona siðareglur geti aldrei tæpt á öllum málum. Hún telur ákvæði siðareglnanna ná vel yfir kynferðisofbeldi. „Bæði fyrsta og þriðja greinin geta vel átt við kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Þessar siðareglur eru viðmið fyrir félög og það er ekki hægt að telja upp alla mögulega hluti í þeim,“ segir Líney Rut.

Hafdís Inga Hinriksdóttir, sérfræðingur hjá Bjarkarhlíð, hefur unnið að þessum málum um nokkra hríð og skoðað sérstaklega málefni íþróttahreyfingarinnar. Hún segir afar mikilvægt að íþróttahreyfingin taki þessa tegund ofbeldis föstum tökum.

„Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað í íslensku samfélagi undanfarin misseri, og íþróttahreyfingin er ekkert undanskilin þeirri umræðu, hefði maður haldið að skerpa hefði átt á slíkum þáttum í siðareglum regnhlífarsamtaka íslenskra íþrótta,“ segir Hafdís Inga. „Við höfum náð miklum árangri á ýmsum sviðum íþrótta í gegnum tíðina og því er mikilvægt að ganga á undan með góðu fordæmi og skýrri sýn á að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi eigi ekki að líðast innan íslenskra íþrótta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×