Erlent

Halda áfram limgervingu Trumps

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Aðferðir typpamyndaprakkaranna verða sífellt fágaðri.
Aðferðir typpamyndaprakkaranna verða sífellt fágaðri. AP/Alex Brandon
Spellvirkjunum sem náðu að skipta út aðalmyndinni af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á alfræðivefnum Wikipedia á föstudaginn þótti greinilega ekki fullnægjandi að komast upp með hrekkinn einu sinni. Bandaríski fréttavefurinn The Verge greindi frá því um helgina að síðan þá hefðu að minnsta kosti fimm slíkar „árásir“ verið gerðar á Wikipediasíðuna.

Fréttablaðið fjallaði um hrekkinn í helgarblaðinu og kom þar fram að með því að breyta síðunni á Wikipedia hefði hrekkjalómunum einnig tekist að gabba Siri, stafrænan aðstoðarmann Apple, sem birti sömuleiðis reðurmyndina er notendur spurðu út í forsetann umdeilda.

Að því er kom fram í umfjöllun The Verge verða aðferðir typpamyndaprakkaranna sífellt fágaðri og vandaðri. Þeir hafa notað mismunandi typpi í hvert skipti til þess að komast hjá síum og til að mynda reynt að fela myndina fyrir stjórnendum Wikipedia með því að hlaða myndunum inn undir sakleysislegum skráarheitum. Til dæmis var ein skráin nefnd „64 year old 3.jpg“.

Hrekkurinn var greinilega þaulhugsaður þar sem síða forsetans nýtur svokallaðrar aukinnar staðfestingarverndar. Það þýðir að einungis aðgangar eldri en þrjátíu daga sem hafa gert að minnsta kosti 500 breytingar gátu átt við síðu forsetans.

Samkvæmt Wikipediastjórnanda sem gengur undir notandanafninu TheSandDoctor hafa ballargrallararnir komist hjá þessari vernd með því að stela aðgöngum annarra. Þótt stjórnendur geti kveikt á svokallaðri tveggja þátta auðkenningu, og þannig krafist þess að auðkenniskóði sé sendur með SMS-i áður en innskráning fer fram, náðu besefabófarnir að stela aðgangi eins stjórnanda enda hafði sá vanrækt að kveikja á þessari tveggja þátta auðkenningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×