Fjórir þingmenn Miðflokksins sem teknir voru upp á Klausturbarnum 20. nóvember réðu sér lögmann sem sendi Persónuvernd erindi um upptökuna þar sem krafist var að stofnunin rannsakaði hver hefði tekið þá upp.
Rúmum sólarhring síðar steig Bára Halldórsdóttir fram í fjölmiðlum og sagðist hafa tekið samtal þingmannanna sex upp. Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar segir að í framhaldinu hafi verið sent erindi til stofnunarinnar þar sem óskað var svara um hvort enn væri farið fram á umfjöllun Persónuverndar um málið og hvort farið sé fram á að hún beiti valdheimildum sínum og þá hverjum.

„Þessu var svarað strax samdægurs af lögmanni fyrir hönd fjögurra þingmanna Miðflokksins. Þar var ítrekuð krafa að Persónuvernd rannsaki meint brot þeirra sem stóðu að þeirri upptöku sem hér um ræðir. Þess er krafist að atvik máls verði rannsökuð til hlítar,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, og stofnunin beiti heimildum til stjórnvaldssekta gagnvart hinum brotlega.
Helga segir stjórn stofnunarinnar taki málið nú fyrir og kanni hvort málið falli undir persónuverndarlög. Stjórnarfundur sé í næstu viku en hún telji að ekki takist þó að afgreiða þetta tiltekna mál á þeim fundi. Fleiri mál séu á borði nefndarinnar sem þurfi að ljúka. Málið sé þó unnið eins hratt og hægt sé.
Hún segir að sektir í svona málum geti verið háar.
„Ef mál falla undir persónuverndarlög þá geta sektirnar verið þónokkrar samkvæmt nýsamþykktum persónuverndarlögum. Þær geta hlaupið á háum upphæðum.“

Þar sagðist hún ekki vera hrædd við að þingmennirnir færu í mál við hana á grundvelli persónuverndarsjónarmiða. Hún veltir því fyrir sér hvort þeir ætli sér að taka af henni; hundinn eða orðsporið því hún sé öryrki sem hafi lítið á milli handanna.
„Það var nauðsynlegt að koma þessu á framfæri og ef ég á að fara á sakaskrá fyrir eitthvað þá held ég ekki að þetta sé það versta sem ég gæti gert.“
Þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem hún verði vitni að særandi tali í garð öryrkja og kvenna af hálfu þingmanna. Viðkvæðið sé oft þannig að konur séu of háværar og að troða sér inn á annarra manna svið og að öryrkjar séu einskis virði. Þá þyki henni það afar særandi þegar stjórnmálamenn etji hennar samfélagshópi, öryrkjum, á móti útlendingum „og öðrum sem hafa það alveg jafn slæmt og maður sjálfur.“