Erlent

Hermenn vörpuðu táragasi á mótmælendur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögreglumenn reyna að elta mótmælendur í Austur-Kongó í gær.
Lögreglumenn reyna að elta mótmælendur í Austur-Kongó í gær. Nordicphotos/AFP
Lögregluþjónar og hermenn skutu upp í loft og beittu táragasi á mótmælendur í borginni Beni í Austur-Kongó í gær. Mótmælendur höfðu þar brennt hjólbarða og ráðist að meðferðarstöðvum við ebólu til þess að tjá óánægju með landskjörstjórn (CENI). Reuters greindi frá.

Kjörstjórn tilkynnti á miðvikudag um að íbúar í Beni og Butembo fengju ekki að greiða atkvæði í forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningum sem fram eiga að fara á sunnudaginn. Ástæðan er sú að þar geisar ebólufaraldur, sá næstversti í sögu álfunnar. Að minnsta kosti 350 hafa dáið hingað til. Þá er íbúum Yumbi einnig meinað að kjósa vegna þjóðflokkaátaka.

Borgirnar eru sagðar höfuðvígi stjórnarandstöðunnar og því ólíklegar til þess að kjósa flokk Josephs Kabila forseta, PPRD, og forsetaframbjóðanda hans, Emmanuels Ramazani Shadary.

Martin Fayulu, vinsæll stjórnarandstöðuframbjóðandi, hvatti í gær samlanda sína til þess að hefja allsherjarverkfall í dag. „Mér ofbýður. Kjörstjórn hefur farið út fyrir öll velsæmismörk,“ sagði Pierre Lumbi, kosningastjóri Fayulu, við blaðamenn.

Kosningarnar verða þær fyrstu í 34 ár þar sem Kabila er ekki á kjörseðlinum. Hann tók við eftir að faðir hans var myrtur árið 2001. Þessar kosningar áttu að fara fram árið 2016 en hefur verið frestað ítrekað. Nú óttast stjórnarandstæðingar að PPRD reyni að stela kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×