Erlent

Andstöðuvígi kjósa ekki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Felix Tshisekedi, forsetaframbjóðandi í Kongó.
Felix Tshisekedi, forsetaframbjóðandi í Kongó. Vísir/getty
Kjósendur í þremur borgum í Austur-Kongó, sem Reuters segir að kjósi alla jafna aðra flokka en vinstrisinnaða ríkisstjórnarflokkinn PPRD, munu ekki fá að greiða atkvæði í forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 30. desember næstkomandi. Kjörstjórn landsins (CENI) greindi frá þessari niðurstöðu sinni í gær.

Ástæðan er sú að ebólufaraldur geisar nú í landinu, sá næstversti í sögu Afríku. Ekki verður því kosið í Beni og Butembo nú á sunnudaginn. Þá verður heldur ekki kosið í borginni Yumbi en það er vegna þjóðflokkaátaka. Kizito Bin Hangi, forseti mannréttindabaráttusamtaka í Beni, sagði við Reuters að ákvörðunin væri óréttlátt. Íbúar myndu mótmæla henni á fimmtudag og krefjast þess að fá að greiða atkvæði.

Martin Fayulu, einn forsetaframbjóðenda stjórnarandstöðunnar, sagði í gær að það væri rökleysa að banna borgarbúum að kjósa vegna ebólu. „Við höfum nú þegar háð kosningabaráttu á þessum svæðum. Þetta er enn ein brellan til þess að reyna að stela kosningunum,“ tísti Fayulu.

Upplýsingafulltrúi UDPS, stjórnarandstöðuflokks sem býður fram Felix Tshisekedi til forseta, sagði að flokkurinn myndi taka þátt í kosningunum þrátt fyrir ákvörðun CENI.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×