Aðalmeðferð í málinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sigurður Ragnar Kristinsson sætir ákæru fyrir skipulagningu og innflutning á fimm kílóum af amfetamíni frá Spáni til Íslands í janúar í fyrra. Sigurður kaus að tjá sig ekkert við aðalmeðferðina í morgun. Hann sagði allt hafa komið fram í skýrslutökum hjá lögreglu og hann stæði við framburð sinn þar.
![](https://www.visir.is/i/9473D679EDAF62576B4B72E82AC65F138E65F797F29F5CD50D835D7843D7A3D2_713x0.jpg)
„Björgunarhringur“ á leið frá Spáni
Hákon Örn sagðist hafa verið að fjármagna gerð kvikmyndar og í desember árið 2017 hefði hann vantað pening til baka frá Sigurði. Um er að ræða kvikmyndina Fullir vasar en Hákon nefndi ekki sérstaklega um hvaða mynd væri að ræða í dómsal. Sagði Hákon gerð kvikmyndarinnar hafa farið langt fram úr áætlunum og vantaði hann nauðsynlega pening til að halda framleiðslunni gangandi.Hákon Örn sagðist hafa beðið Sigurð um pening til baka í desember árið 2017 og að Sigurður hefði greint honum frá því að björgunarhringur væri á leið frá Spáni til Íslands.
Sigurður hafi sagt Hákoni að kaupa símanúmer sem átti að stíla á pakka sem átti að flytja með DHL frá Spáni til Íslands. Hákon sagðist ekki hafa áttað sig almennilega á því hvað hefði verið í pakkanum, hann taldi að um hefði verið að ræða peningasendingu frá Sigurði sem hann átti að fá sem endurgreiðslu á láninu.
![](https://www.visir.is/i/1AA9548F0F891E4B070D3D3D7BAB6007C6169227E6B563A545DAC0646899110D_713x0.jpg)
Runnu tvær grímur á Hákon
Hákon sagði að það hefðu runnið á hann tvær grímur þegar kom í ljós að pakkinn var stílaður á Skáksamband Íslands. Hann ákvað því að biðja félaga sinn um að greiða fyrir pakkann, taka á móti honum og koma á áfangastað í Mosfellsbæ gegn niðurfellingu skuldar.Hákon sagðist hafa fengið slæma tilfinningu fyrir þessum pakka, án þess að vita hvað væri í honum. Á einhverjum tímapunkti fékk hann að heyra að um eitt kíló af fæðubótarefnum væri að ræða.
Sagðist Hákon hafa reynt að fjarlægja sig málinu eins og hann gæti. Þá hefði hann verið samvinnuþýður hjá lögreglu við að upplýsa málið.
Hákon sagðist hafa verið góður vinur Sigurðar og málið hefði gengið of langt af hans hálfu vegna þess að hann var meðvirkur með Sigurði vini sínum og vildi ekki bregðast honum.
Er Hákon er ákærður fyrir skipulagningu og að leggja ráðin um innflutninginn en hann neitar alfarið sök.