Erlent

Þrír sakfelldir fyrir að myrða blaðamann BBC

Samúel Karl Ólason skrifar
Shah starfaði fyrir BBC í Afganistan og hafði gert það um nokkuð skeið.
Shah starfaði fyrir BBC í Afganistan og hafði gert það um nokkuð skeið. Vísir/Getty
Þrír afganskir menn hafa verið sakfelldir fyrir að myrða Ahmad Shah, blaðamann BBC. Hann var skotinn til bana í apríl en þrátt fyrir að þrír menn hafi verið sakfelldir hafa nöfn þeirra ekki verið opinberuð. Þar að auki hefur ástæða morðsins ekki verið opinberuð.

Einn mannanna var dæmdur til dauða. Annar var dæmdur til allt að 30 ára fangelsisvistar og sá þriðji var dæmdur til allt að sex ára fangelsisvistar. Mennirnir hafa áfrýjað úrskurðinum, samkvæmt BBC.



Sérstakur hryðjuverkadómstóll réttaði yfir mönnunum og hefur þeim einnig verið haldið í Parwan fangelsinu. Það er hvað þekktast fyrir að hýsa aðila sem sakaðir eru um, og dæmdir hafa verið fyrir, hryðjuverk.

Shah var skotinn til bana þegar hann var að hjóla til heimilis síns í Khost í Afganistan og yfirvöld segja hann hafa verið skotinn af tveimur mönnum á mótorhjóli. Engar hótanir höfðu borist til hans í aðdraganda morðsins, samkvæmt fjölskyldu hans.

Talsmaður Talibana þvertók fyrir að þeir hefðu komið að morðinu og sagði Shah hafa verið fagmann og að morð hans hefði verið sorglegt. Dagurinn sem Shah var skotinn, 30. apríl, var sá blóðugasti fyrir blaðamenn í sögu Afganistan. Fyrr um daginn höfðu níu blaðamenn dáið í sprengjuárás í Kabúl.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×